Loftmynd

Caput Ensemble

Harpa Norðurljós

18:30

27. janúar

Efnisskrá

Veronique Vaka; Holos (2022) ‘10.30 mín, - Frumflutningur
Haukur Tómasson; Loftmynd - Air Sculptured (2022) ‘13.30 mín, - Frumflutningur
Hafliði Hallgrímsson; Ricercar (2015/2021) ‘15mín, - Frumflutningur
Simon Mawhinney; Polo (2018) ‘17 mín. - Frumflutningur

Caput frumflytur 3 ný íslensk verk, Holos (2022) eftir Veronique Vöku, Loftmynd eftir Hauk Tómasson (2022) og Ricercar op.51 (2015/21) eftir Hafliða Hallgrímsson. Gestaskáld á tónleikunum er Írska tónskáldið Simon Mawhinney. Hann fæddist í Co. Down, á Norður Írlandi árið 1976, nam tónlist og tónsmíðar í Oxford, York og Belfast Queens’s háskólunum og starfar núna við Queen’s. Simon hefur samið fjölda stórra kammerverka, m.a. fyrir Þýska, Franska og Breska hópa og kom m.a. hingað til lands þegar hann samdi Starbog fyrir Caput vorið 2011. Polo er þriðji þáttur úr stærra verki sem Simon hefur lokið við að skrifa fyrir Caput, verkið hófst á Starbog en annar þátturinn Sallagh þar sem flautan er í forgrunni, verður fluttur síðar og þá vonandi allt verkið í heild sinni. Píanóleikari í Polo er Írska ungstirnið Seán Morgan-Rooney. Hafliði Hallgrímsson segir um verk sitt Ricercar;
Það var upphaflega samið fyrir skoska kammergrúppu, Daniels Beard. Það var frumflutt í Glasgow og tekið upp af BBC. Ég áttaði mig strax á því að þetta verk þurfti að semja upp á nýtt, og hef ég verið að vinna við endurfæðingu þess af og til, og  tókst að ljúka þessu verkefni nýlega. Með verki Veronique Vöku fylgir eftirfarandi texti;
Til Veronique Vaka
HOLOS ágúst 2022, Það eru sjö dagar síðan eldgosið  í Meradölum hófst. Ég er orðin nokkuð lúin eftir mikla vinnutörn. Ég stjórna náttúruvárvöktuninni á Veðurstofunni og hef því umsjón með vöktun á eldgosinu. Tölvupósthólfið mitt er fullt af ólesnum bréfum. Ég rek augun í bréf frá Veronique Vöku tónskáldi og það rifjast upp fyrir mér að ég hafði lofað henni fyrir mörgum mánuðum að skrifa texta í tónleikaprógrammið hennar. Við þekkjumst ekki. Nú hittumst við á tíunda degi goss. Ég er á bakvakt og get aðeins slakað á. Það er frískandi að hitta Veronique og ég hressist öll við að sýna henni eftirlitssalinn þar sem við fylgjumst með eldgosinu. Hún ljómar. Ég verð þess áskynja að hún skilur vel það sama og ég, að Ísland er engin venjuleg eyja. Veðrið breytist hratt. Jörðin er í sífelldri og oft hraðri mótun markaðri af jarðskjálftum og eldgosum. Jöklar, skriður og grjóthrun móta landið, stundum samfara miklum hamförum. Stærstu og virkustu eldfjöll landsins eru hulin jöklum. Grímsvötn er afskekktasta og virkasta eldstöð landsins. Hún er í miðjum Vatnajökli, stærsta jökli Evrópu, og hefur gosið sextíu sinnum frá því land byggðist. Jökulinn er allt að kílómetri að þykkt. Eins og aðrar eldstöðvar undir jökli bræðir hún hluta jökulsins og bræðsluvatnið safnast fyrir inni í jökulísnum og myndar vatnsgeymi. Þegar ofanáliggjandi íshellan hefur lyfst upp um tugi metra kemur að þolmörkum. Vatnið brýst út í hamförum jökulhlaups þar sem gruggugt jökulvatnið bræðir sér leið í gegnum ísinn og ryðst fram á svörtu sandana sunnan jökuls. Það er áhugavert að við vinnum báðar með titring, það er hljóðbylgjur en á ólíku tíðnisviði. Ég segi Veronique frá nýlegum rannsóknum mínum og félaga minna á Vatnajökli. Við höfum uppgötvað að íshellan í Grímsvötnum titrar viðstöðulaust eins og tromma. Við höfum einnig uppgötvað mjög veikan og áður óþekktan titring sem stóru skriðjöklarnir sunnan til í Vatnajökli, Síðujökull og Skeiðarárjökull, valda árlega á haustin. Við erum enn að rannsaka upptök þessa titrings. Flugmaður sendi mér mynd af Síðujökli í sumar. Hann hafði aldrei séð hann svona áður. Breiður af brúnum linum krapa í stað grjótharðs bláhvíts jökulíss. Skriðjöklarnir hörfa nú hratt vegna hamfarahlýnunar síðustu ára. Þeir skilja eftir sig óstöðugar hlíðar sem veldur skriðuhættu en einnig djúp jökullón sem geta valdið hamfarahlaupum. Svo ekki sé talað um öll eldfjöllin sem nú eru hulin jöklinum. Þrýstingsléttirinn þegar jökulfarginu sleppir mun leiða til tíðari eldgosa. Með öðrum orðum, hörfun jökla mun leiða til enn tíðari náttúruhamfara. Ég er glöð að hafa hitt Veronique og átta mig á því að markmið okkar falla að einhverju leiti saman; að túlka hegðun jökla. Ég með vísindalegum aðferðum, hún með tónlist. Jörðin bíður ekki og ég sný mér aftur að því að fylgjast með jarðskjálftatitringnum frá eldgosinu í Meradölum.   Kristín Jónsdóttir,
Jarðskjálftafræðingur

Loftmynd (2022) ( Lengd 14 mínútur)

Þetta verk er samið fyrir 9 strengjahljóðfæri; fiðlur, víólur, selló og kontrabassa. Þetta er samsetning skyldra hljóðfæra sem hvert hefur sinn lit og sitt svið en svo eiga þau líka sameiginlegt að geta myndað mjög fjölbreytta liti, eftir því hvernig þeim er beitt. Verkið samanstendur af sex einsteinungum, þ.e. einsleitum hlutum þar sem hljóðfærin renna (mismikið þó) saman í eitt. 

CAPUT hefur talsverða sérstöðu í íslensku tónlistarlífi; var formlega stofnað árið 1988 og hefur frá upphafi sérhæft sig í flutningi samtímatónlistar. Fjölmörg íslensk tónskáld hafa skrifað verk fyrir Caput og hópurinn flutt og hljóðritað mörg meistarastykki eldri tónskálda en einnig frumsmíðar yngstu tónhöfunda. CAPUT hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífi Norðurlandanna og Evrópu, farið í margar tónleikaferðir og hljóðritað verk Norrænna og Evrópskra tónskálda. Einnig hefur hópurinn farið í tónleikaferðir til Japan, Kína, Bandaríkjanna og Canada og ávalt flutt verk íslenskra tónskálda í bland við verk alþjóðlegra samtímatónskálda. CAPUT er gjarnan talið meðal helstu flytjenda samtímatónlistar í Evrópu og hefur sem Íslenskur hópur, haft það að leiðarljósi að kynna Íslenska tónlist á alþjóða vettvangi. Hópurinn hefur tekið þátt í fjölda Norrænna og alþjóðlegra samstarfsverkefna, komið fram á tónlistarhátíðum s.s. Holland Festival, Gulbenkian Festival, Warsjárhaustinu og fl. og hljóðritað tónlist fyrir mörg alþjóðleg útgáfufyrirtæki, þ.á.m. BIS, Naxos, Deutsche Grammophon og Sono Luminus.

Guðni Franzson lauk einleikaraprófi á klarinettu og prófi frá tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984. Fór þá til Hollands og stundaði framhaldsnám í klarínettuleik hjá George Pieterson, Walter Boeykens og Harry Sparnaay, til þess hlaut hann m.a. styrki frá Hollenska menntamálaráðuneytinu og hinum danska Léonie Sonning sjóði. Guðni hefur komið fram sem einleikari í mörgum löndum Evrópu, Brazilíu, Canada, Japan og í fyrrum Sovétríkjum, hljóðritað fjölda geisladiska með nýrrir og klassískri tónlist jafnframt því að leika og hljóðrita þjóðlega tónlist s.s. með Rússíbönum. Samhliða hljóðfæraleiknum vinnur Guðni sem tónsmiður og stjórnandi. Hann hefur samið tónlist fyrir fjölda dansverka, leiksýninga, kammerverk,  Vorið 2009 hlaut Guðni Grímuverðlaunin fyrir tónlistina við leikverkið Steinar í Djúpinu, í uppsetningu Lab Loka og Hafnarfjarðarleikhússins. Guðni stýrir gjarnan CAPUT á tónleikum og við hljóðritun auk þess að stjórna stöku sinnum Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveitum, s.s. Sinfóníuhljómsveitum Vaasa og Pori í Finnlandi, auk margvíslegra kammerhópa.  Hann hefur einnig haldið um sprotann hjá Íslensku óperunni og í Þjóðleikhúsinu.   Tóney er skapandi vettvangur fyrir tónlist og hreyfingu sem Guðni stofnaði árið 2007 og starfrækir með hópi valinkunnra listamanna.