MYRKRABÖRN — DRAUMABÖRN: samtal við strengjakvartett
Strengjakvartettinn Gró býður krökkum og forvitnum áheyrendum á öllum aldri á tæplega klukkustundarlanga tónleika í notalegu umhverfi tónleikastaðarins Mengis á sunnudagsmorgni.
Leiknir verða valdir kaflar úr efnisskránni Frá draumi til draums og leitast við að varpa ljósi á hvað einkennir fyrirbærið strengjakvartett. Hvenær voru fyrst skrifaðir kvartettar og hvernig hljómuðu þeir? Hvers vegna skyldu tónskáld enn vilja skrifa tónlist fyrir strengjakvartett og er gaman að spila í kvartett? Getur verið að samspil hljóðfæraleikaranna fjögurra líkist um margt samtali fjögurra vina, sem stundum eru sammála en stundum ósammála, óðamála og grípa fram í hver fyrir öðrum? Er kannski einhver að reyna að vera sniðugur? Tónlistin sem hljómar, er ólík og hljóðfæraleikararnir þurfa að stilla saman strengi sína og huga, til þess að túlka á sannfærandi hátt, ólíkar hugmyndir og drauma tónskáldanna. Kannski erum við svo heppin að einhver íslensku tónskáldanna, sem við spilum tónlist eftir, verði stödd í salnum og við getum beðið þau að segja okkur sjálf frá hugmyndunum að baki verkum sínum. Hvernig er að vera tónskáld og heyra strengjakvartett flytja verkin sín? Og skyldi eitthvert barnanna í Mengi dreyma um að verða tónskáld?
Guðrún Hrund víóluleikari kvartettsins leiðir samtalið við börnin í þessari dagskrá, en hún er umsjónarmaður tónleikaraðarinnar Krakkamengis í Mengi um þessar mundir.
Strengjakvartettinn Gró
Gunnhildur Daðadóttir, fiðla
Gróa Margrét Valdimarsdóttir, fiðla
Guðrún Hrund Harðardóttir, víóla
Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, selló
Þær Gunnhildur, Gróa Margrét, Guðrún Hrund og Hrafnhildur, leika nú í fyrsta skipti saman sem strengjakvartettinn Gró. Áður hafa þær þó margsinnis spilað saman á tónleikum, með stórum og litlum tónlistarhópum, svo sem; Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveit Reykjavíkur, Barokkbandinu Brák og kammerhópnum Jöklu. Þær hafa allar mikla reynslu á sviði kammertónlistar og sameinast hér í áhuga sínum á að kanna fjölbreyttan hljóðheim nýrrar tónlistar. Allar hafa þær frumflutt fjölda nýrra tónverka og unnið náið með íslenskum og erlendum samtímatónskáldum.